M.G.M GRAND CLUB
Margrét M. Norðdahl útg. 2005 Textaverk, hluti af innsetningunni: The TukTuk a journey Til sölu: [email protected], +354 8235714 Verkið er endurgerð skiltis sem auglýsti klúbb í höfuðborg Sri Lanka, Colombo. Endurgerðin var sýnd á ,,Café Karólínu‘‘ á Akureyri og var þar hluti af innsetningunni The tuktuk a journey. Textinn er sá sami á frumgerðinni og endurgerðinni en öðlast ólíka merkingu og innihald eftir staðsetningu. Úr sýningarskrá: ,,The tuktuk, a journey er heimildaverk sem gerist á Sri Lanka, í og úr aftursætinu á tuktuk. Hnúarnir hvítna við átakið að halda sér í ökutækinu, sem annars er hið huggulegasta, blómavasar á mælaborði og María Mey eða Krishna eða Garnish eða Búdda eða Jesú eða allir og sætin og klæðningin plöstuð myndum og munstrum. Göturnar eru hrærigrautur sterkrar lyktar af mat, fólki, úrgangi og útblæstri. Ótal umhverfishljóð mynda síbylju nema maður leggi sig fram að greina þau í sundur. Bjölluhljómur úr musterum og kirkjum, munkar kyrja heilræði í gjallarhorn svo varla má heyra eða mæla þó sölumenn happadrættismiða geri sitt besta. Bílflautan er mikilvægari en stefnuljós og bremsur á tvöfaldri akbraut þar sem keyrt er í fjórum röðum og stundum fimm, trukkar, jeppar, fjögurra manna fjölskylda á mótorhjóli og þriggja manna á reiðhjóli, uxakerra og heimalöguð farartæki með sláttuvélamótor og enginn vill vera á eftir öðrum. Skilti þekja öll hús og hreysi, kofa og sölubása hvar sem komið er, bic pennar, maggisúpa og cocacola eru auglýst í afskekktum stríðshrjáðum svæðum þar sem barnungir hermenn í grænu eða singalskir þjóðvarðliðar í bleiku með vélbyssur híma í varðskýlum með kílómeters millibili. 150 fermetra skilti með mynd af hamingjusömum hrísgrjónabændum með rjóðar kinnar, basmati rice, gnæfir yfir ökrum sitthvoru megin við þjóðveginn og yfir bændunum berfættum, bograndi í leðjunni og hitanum með börn á bakinu sem brosa eins og tíðkast þegar keyrt er framhjá.‘‘ |