(Gunnhildur Hauksdóttir - Manifesto)
Myndlist fær mig til að spyrja spurninga sem ég vissi ekki fyrir að mér léki hugur á að vita, hún svarar ekki endilega en leyfir spurningunni að staldra við og setjast að í huganum. Svarið kemur kannski seinna. Myndlist er leið mín til bregðast við, rannsaka og vinna úr upplýsingum, áhrifum sem ég tek úr umhverfinu. Forvitni og áhugi að leiðbeinir mér í vali á efni sem getur verið óhlutbundin stúdía um fjarlægðir, áhrif, áferð, hljóð og mynd, en oft tengjast efnistökin mannlegum þáttum einsog ótta og hugrekki, trú og efa, kynferði og kynvitund og þrautinni að rata um völundarhús þess að vera manneskja. Ég vinn í þann miðil sem hentar hugmyndinni best á hverjum tíma, ég leyfi hugmyndinni að velja miðilinn. Ég trúi á samstarf þvert á listmiðla, list-, og fræðigreina. Ég trúi á myndlist sem áhald til að miðla tengingum, tilfinningum og hugmyndum sem erfitt eða ómögulegt getur verið að tjá með orðum. Myndlist mín er ávallt tilraun til slíkrar tjáningar. |